Verslunarrými í hjarta Kópavogs
Smáratorg er í alfaraleið á miðju höfuðborgarsvæðinu og þar er að finna fjölbreytt úrval verslana, þjónustuaðila í læknatengdri starfsemi og matsölustaða.
Fjöldi bílastæða eru bæði á bílaplani úti og í stórum bílakjallara en í bílakjallara eru auk hefðbundinna bílastæða rafhleðslustöðvar ætlaðar fyrir viðskiptavini.
Frá bílakjallara er lyfta og gott aðgengi fyrir viðskiptavini og starfsfólk. Hjólastæði eru einnig til staðar.
Strætó stoppar beint fyrir utan, á stoppistöðinni Smáratorg á Dalvegi (leiðir 24 og 28). Frá stoppistöðinni Smáralind við Fífuhvammsveg er einungis 4-6 mínútna gangur.
Póstbox TVG Xpress eru staðsett fyrir utan verslun Bónus og póstbox DHL eru staðsett í bílakjallara.
Smáratorg var opnað formlega 21. mars 1998 og frá upphafi hefur þar verið blómleg þjónusta og verslanir af ýmsu tagi. Við opnun voru þar ýmis rótgróin fyrirtæki sem höfðu haft starfsemi annars staðar svo sem apótek, bakarí og banki.
Rúmfatalagerinn, nú JYSK, opnaði glæsilega verslun og Rikki Chan opnaði sinn annan matsölustað. Þá opnaði ísbúð, Ís-Sel, og læknastofan Húðlæknastöðin. Í desember, þetta opnunarár, flutti Læknavaktin einnig á Smáratorg í umtalsvert stærra húsnæði en hún hafði verið í áður. Þar starfaði hún í 20 ár þar til að starfsemin sprengdi utan af sér rýmið.
Á árunum 2006-2008 reis Turninn við Smáratorg 3. Nýja byggingin varð hæsta bygging landsins, alls 20 hæðir. Turninn og Smáratorg mynda saman verslana- og viðskiptatorg og með tilkomu Turnsins bættist við mikið rými á jarðhæð undir frekari verslun og þjónustu.
Margt hefur breyst frá opnun Smáratorgs, íbúafjöldi Kópavogs hefur tvöfaldast, stórt verslunar- og þjónustuhverfi hefur risið í Kópavogsdal og ný hverfi risið austan við Reykjanesbraut. Smáratorg, sem eitt sinn var í útjaðri borgarinnar, er nú miðja höfuðborgarsvæðisins, í hjarta Kópavogs og í alfaraleið.
Eigandi Smáratorgs 1 og Turnsins, Smáratorgi 3, er Eik fasteignafélag hf.